Eru loftslagsvísindin útkljáð?
Það sem vísindin segja...
Vísindin eru aldrei 100% útkljáð - vísindi snúast um að minnka óvissu. Mismunandi svið vísinda eru þekkt með mismunandi vissu. Sem dæmi, þá er þekkingin minni á því hvaða áhrif örður hafa á loftslagsbreytingar, heldur en hlýnunaráhrif CO2. Þeir þættir sem minna er vitað um breyta ekki þeirri staðreynd að loftslagsvísindin eru mjög vel ígrunduð.
Margir halda að búið sé að útkljá vísindin um loftslagsbreytingar. Óvissan er mikil, of mikil til að hægt sé að fullyrða nokkuð um hvort mennirnir hafa einhver áhrif á loftslagsbreytingar.
Algengt er að heyra efasemdamenn segja að "loftslagsvísindin séu ekki útkljáð", þar sem þeir meina í raun að óvissa innan loftslagsvísindanna sé of mikil til að réttlæta minnkandi losun á CO2. Þau rök sýna ákveðinn misskilning á því hvernig vísindin virka. Í fyrsta lagi þá gera þau rök ráð fyrir að vísindin séu á tvívíðu plani - þ.e. að vísindin séu ekki útkljáð fyrr en þau fara yfir ákveðna ímyndaða línu og þá séu þau útkljáð. Þvert á móti, þá eru vísindin aldrei 100% útkljáð. Í öðru lagi gera þessi rök ráð fyrir því að lítil þekking á einu sviði vísindanna útiloki góða þekkingu á öðru sviði vísindanna. Sú er ekki raunin. Til að svara spurningunni "eru loftslagsvísindin útkljáð", þá þurfa menn að átta sig fyrst á því hvernig vísindin virka.
Vísindi eru ekki spurning um endanlegar sannanir. Þau verða aldrei 100% viss. Það er vettvangur stærðfræðinnar og rökfræðinnar. Vísindi snúast um að auka þekkingu með því að minnka óvissu. Mismunandi svið vísinda eru þekkt með mismunandi vissu. Sem dæmi, þá eru sum svið loftslagsvísinda minna þekkt, líkt og áhrif arða (e. aerosols - agnir í andrúmsloftinu). Örður hafa kælandi áhrif með því að hindra inngeislun sólar - en þau geta einnig stuðlað að þéttingu skýja. Spurningin um heildaráhrif arða er einn stærsti þáttur óvissu í loftslagsvísindunum.
Á móti er það vitað með mikilli vissu að mennirnir eru að auka styrk CO2 í andrúmsloftinu. Magn CO2 sem menn eru að losa út í andrúmsloftið er hægt að reikna út með því að nota alþjóðlegar tölur þar um (CDIAC). Að sama skapi er hægt að mæla kolefnissamsætur í andrúmsloftinu til að sannreyna það (Ghosh 2003). Einnig er hægt að sannreyna það ennfrekar með mælingum á minnkandi styrk súrefnis í andrúmsloftinu af völdum bruna jarðefnaeldsneytis (Manning 2006). Það eru ýmis sönnunargögn sem auka vissu okkar um að styrkur CO2 sé að aukast af völdum manna.
Einnig er það vitað með mikilli vissu hver áhrif aukningar CO2 og annarra gróðurhúsalofttegunda eru til hlýnunar. Talað er um geislunarálag (e. radiative forcing), sem er röskun á orkujafnvægi Jarðarinnar. Hægt er að reikna með töluverðri nákvæmni hversu mikinn hita gróðurhúsaáhrifin valda, með því að nota líkön sem reikna út hversu mikil gleypni gróðurhúsalofttegundanna er á bylgjulengdum innrauðs ljóss (sú bylgjulengd sem að Jörðin sendir frá sér). Hægt er síðan að tengja saman niðurstöður líkanana við beinar mælingar frá gervihnöttum sem mæla hversu mikið af innrauðu ljósi sleppur út í geim. Á mynd 1 má sjá að mælingar á auknum gróðurhúsaáhrifum (svört lína) ber vel saman við það sem búast má við, miðað við líkönin (rauð lína)(Chen 2007). Þá niðurstöðu má einnig sannreyna með mælingum við yfirborð jarðar þar sem meiri inngeislun af innrauðu ljósi snýr aftur til Jarðar á þeim bylgjulengdum sem að gróðurhúsalofttegundirnar virka (Evans 2006). Aftur eru ýmis óháð sönnunargögn sem auka vissu okka um hin auknu gróðurhúsaáhrif.
Mynd 1: Hin auknu gróðurhúsaáhrif frá 1970-2006. Svarta línan sýnir mælingar með gervihnöttum. Rauð lína sýnir niðurstöðu líkana (Chen 2007).
Þannig að þekkingin er minni hvað varðar geislunarálag af völdum arða og hærri þekking á geislunarálagi gróðurhúsalofttegunda. Þessi munur sést vel á mynd 2 sem sýnir hver líkindin eru á geislunarálagi gróðurhúsalofttegunda (brotin rauð lína) og geislunarálagi arða (brotin blá lína). Líkindi geislunarálags gróðurhúsalofttegunda er hátt á þröngu sviði, á meðan líkindi geislunarálags arða er minna og dreifðara.
Mynd 2: Líkindi á dreifingu geislunarálags af völdum manna. Gróðurhúsalofttegundirnar eru sýndar með rauðri brotinni línu, örður með blárri brotinni línu og heildar geislunaráhrif af völdum manna með rauðri fylltri kúrfu.(IPCC AR4 Figure 2.20b)
Það sem skiptir mestu máli er það að minni þekking á örðum, eyðir ekki þá háu þekkingu sem er hvað varðar áhrif til hlýnunar af völdum gróðurhúsalofttegundanna. Lítil þekking á einu sviði loftslagsvísindanna breytir því ekki að mikill hluti þekkingar loftslagsvísinda er góður. Að segja að vegna þess að 5% vísindanna sé lítið þekkt, þá afsanni það hin 95%, er í mótsögn við það sem við köllum vísindi.
Translation by Hoskibui, . View original English version.
Röksemdir efasemdamanna...